background

phone

Hvar lenda smáraftækin þín? (birt 12. október 2018)

Næstkomandi laugardag, 13. október, er alþjóðlegur átaksdagur um endurvinnslu raftækjaúrgangs. Til hans er stofnað að frumkvæði Weee Forum sem eru samtök skilakerfa fyrir raftæki í Evrópu. Þessi átaksdagur er haldinn í 20 löndum og af um 40 aðilum til þess að vekja athygli á endurvinnslu raftækjaúrgangs og hvetja neytendur til að skila raftækjum.

Á Íslandi gegnir Úrvinnslusjóður þessu hlutverki og hafa starfsmenn hans dregið að þessu verkefni þá aðila hér á landi sem næst standa þessu úrlausnarefni.

Efnamóttakan hf. er einn þessara aðila og er í því hlutverki að safna og taka á móti raftækjaúrgangi og koma honum í réttan farveg. Þegar vakin var athygli okkar á þessu átaksverkefni lögðum við höfuðið í bleyti og veltum fyrir okkur hvar helst er þörf á úrbótum í söfnun raftækja og hvar við getum lagt okkar að mörkum við það. Við komumst að þeirri niðurstöðu að mesti áhættuflokkurinn í hópi raftækja væru það sem við köllum „smáraftæki“. Mest hætta er á að þessi raftæki „lendi“ með almennu rusli vegna smæðar sinnar og vegna þess að ekki hafa allir hugann við eða hugmynd um hvað er rétt í þessum efnum.

Með smáraftækjum er helst átt við lítil raftæki sem knúin eru rafhlöðu og eru kannski ekki stærri en svo að falla vel í lófa manns. Í þennan flokk getum við fellt:

 • Farsíma
 • Hlaðvarpa (Ipod)
 • Fjarstýringar
 • Litlar myndavélar
 • Rafmagnstannbursta
 • Litlar vekjaraklukkur
 • Úr
 • Tölvumýs (handfrjálsar)
 • Annar handfrjáls (bluetooth) búnaður
 • Hitamælar (t.d. kjöthitamælar)
 • Veglykla
 • Vasaljós
 • Reiknivélar
 • .... og margt fleira.

Með því að setja þessi raftæki og önnur hliðstæð í almennt rusl er ekki einasta verið að koma í veg fyrir eðlilega og sjálfsagða endurvinnslu á þessum hluta raftækja heldur er í mörgum tilvikum verið að henda rafhlöðunni sem tækið geymir sömu leið með tilheyrandi mengun fyrir bæði jarðveg og haf. Það er líka líklegt að sum tæki á þessum lista liggi í skúffum og skápum landsmanna, engum til gagns, sérstaklega farsímar.

Til margra ára höfum við hjá Efnamóttökunni haft á boðstólum sérstakar öskjur eða -kassa fyrir heimilin til söfnunar á rafhlöðum. Undanfarin ár höfum við sérstaklega bent fólki á og hvatt það til að setja einnig í þessa kassa smáraftækin með rafhlöðunni í. Einnig er kassinn þannig merktur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sama á við um „Rafhlöðutunnuna“ sem hugsuð er meira fyrir fyrirtæki þar sem mikið fellur til af rafhlöðum og fyrir sérstaka söfnunarstaði.

Þannig er tekið á móti innihaldi rafhlöðukassanna (sem eru margnota!) í þessar tunnur á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu eins og eins og bensínstöðvum N1 og Skeljungs, 10-11, Hagkaupum, Elko, BYKO, Fjarðarkaupum, Húsasmiðjunni og Bauhaus auk þess sem hægt er að skila því á endurvinnslustöðvum Sorpu og á söfnunarstöðum sveitarfélaga um land allt.

Þegar við móttökum síðan kassana og tunnurnar flokkum við í sundur tæki og rafhlöður og komum hvorutveggju í tilhlýðilega meðhöndlun og endurvinnslu. Rafhlöðurnar fara til Frakklands þar sem þær eru flokkaðar eftir efni í kolarafhlöður, nikkel-kadmium, liþíum, nikkel-metal hydride og kvikasilfur. Síðan fer hver flokkur í tætingu, hreinsun og bræðslu eftir efni sínu þar sem málmahluti rafhlöðunnar er endurheimtur og síðan komið aftur inn í hringrásina.

Um smáu raftækin gildir það sama. Þau enda um þessar mundir hjá endurvinnsluaðila í Svíþjóð. Þar eru aðgreindir og endurheimtir málmar eftir tegundum sem og plast og hver straumur fer síðan inn í framleiðsluhringrásina aftur.

Átak um endurvinnslu raftækja (birt 9.október 2018)

 thumbnail

Laugardagurinn 13. október 2018  verður fyrsti alþjóðlegi átaksdagurinn um endurvinnslu raftækja

Átakið er sett af stað að frumkvæði WEEE Forum og verður haldið í 20 löndum og af um 40 aðilum. Tilgangur átaksins er vekja athygli á endurvinnslu raftækjaúrgangs og hvetja neytendur til að skila raftækjum og auka árangur í endurvinnslu þann dag og til framtíðar. Viðburðurinn verður haldinn árlega um allan heim; International E-Waste Day.

WEEE forum eru alþjóðleg samtök aðila sem fara með framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs   Úrvinnslusjóður er í samtökunum og nýtur góðs af þeirri miklu þekkingu sem þar er.

Það er talið að um 50 milljón tonn (50.000.000.000 kg) af raftækjaúrgangi falli til á heimsvísu á árinu 2018. Einungis 20% af raftækjaúrgangi í heiminum er endurunnið sem þýðir að 40 milljónir tonna fara annað hvort í urðun, brennslu eða eru meðhöndluð á óásættanlegan hátt. Þó eru 66% af íbúum heimsins með löggjöf um raftækjaúrgang. 

Upplýsingar um magntölur á Íslandi

 • 44 kg/íbúaSett á markað 2017

 •  
 • 14 kg/íbúaRáðstafað 2017

Það er gríðarlegt tap verðmætra og sjaldæfra efna sem falla úr hringrásinni þegar ekki er staðið rétt að meðhöndlun og endurvinnslu raftækja. Auk þess eru ýmis hættuleg efni í raftækjum sem þarf að meðhöndla og farga á réttan hátt. Sífellt er verið að herða kröfur um að endurvinnsla tækjanna verði sérhæfðari til að ná betur til baka málmum og sjaldgæfum jarðarefnum sem eru ýmist til í litlu magni eða mjög erfitt að vinna þau úr jörðu.

Neytendur gegna lykilhlutverki varðandi endurvinnslu raftækja og það eru miklar væntingar um að þetta átak geti haft áhrif á venjur þeirra varðandi skil á raftækjum sem þeir eru hættir að nota. Til dæmis eru á hverju heimili í Belgíu að meðaltali 79 raf- og rafeindatæki og þar að auki 47 perur. Ónotuð raftæki á heimilum eru í raun hráefnanáma (urban mine)  sem mikilvægt er að nýta.

Á Íslandi eru þátttakendur í átaki ársins 2018 Umhverfisstofnun, Efnamóttakan Efnarás og Íslenska gámafélagið sem eru þjónustuaðilar Úrvinnslusjóðs, Heimilistæki, SORPA, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög